Wednesday, August 19, 2009
Raunir Hösmaga.
Stundum vilja verða hlé á bloggáráttunni. Sennilega ágætt. En Hösmagi er búinn að vera óttalegur aumingi í 10 daga.Mánudaginn 10 vaknaði ég ómögulegur snemma morguns. Fór þó á lappir og í mína dagvissu morgunreisu. Þegar heim kom lagðist ég til hvílu aftur og var hálfrænulaus allan daginn. Þann 11. voru góð ráð dýr. Veiðivötnin biðu og ég varð að sjálfsögðu að halda í hann. Ég hafði lambakónginn minn sem bílstjóra inneftir. Þar hittum við Magga fyrir og við héldum til veiða. Gerðum góða veiði um kvöldið og daginn eftir komu Sölvi,Eyþór og 2 frændur hans. Við slitum upp nokkra fiska og héldum svo heimleiðis þann 13. Við Siggi renndum í hlað í Ástjörn kl. 5 og ég tíndi það helsta úr grænu þrumunni og Siggi hélt áfram í bæinn. Ég svaf í 12 tíma. Staulaðist á fætur til að fara fljótlega í rúmið aftur. Föstudagurinn leið í eymd og volæði. Ég fór á læknavaktina og fékk sýklalyf. Þau hafa lítið virkað enn. Á sunnudaginn var litlu stúlkunni þeirra Helgu og Sölva gefið nafn. Hún heitir Hrafnhildur Krístín. Þessi litla snót mun bera bæði þessi rammíslensku og fallegu nöfn með sóma og sann. Ég tók enga áhættu og hélt mig heima. Hugur minn var hjá lítilli stúlku og foreldrum hennar. Það hefði verið lagleg uppákoma að dreifa smitbakeríum yfir alla viðstadda. Litla stúlkan á nafngjafirnar inni hjá Hösmaga afa sínum. Ég vona að þessi pestarskratti gangi ekki af mér dauðum. Ég stóðst ekki mátið og hélt til veiða á mánudagsmorgun. Náði fljótlega 4 punda sjóbirtingi. En refsingin lét ekki á sér standa. Ég fór heim um hálfellefu orðinn fárveikur aftur.Hríðskalf í 3 peysum undir dúnsænginni. Skárri í gær en aftur orðinn veikur eftir hádegi í dag. Ég er orðinn hundleiður á þessu. Bálvondur bara. Ég get varla sagt að ég hafi borðað neitt þessa erfiðu daga. Ég þrauka þetta af mér. Af gömlum vana. Sólarljósið á þessum bæ í dag er Sólblómið góða. Fræ sem ég setti í pott einhverntíma í vor. Ég hef nostrað við þessa jurt og í morgun var brosandi sólblóm í stofuglugganum hjá okkur Kimi. Hann ber virðingu fyrir þessu blómi og hefur algjörlega látið það í friði þó ég hafi staðið hann að verki við blómaát utandyra. Bróðir minn gætti hans meðan Veiðivatnatúrinn stóð yfir. Þeir þekkjast og er vel til vina. Sendiði mér nú góða strauma, krúttin mín kær. Mér finnst meira en nóg komið af hremmingum að sinni. Við rauðu sambýlingarnir sendum ykkur okkar bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.
Comments:
<< Home
Sendi þér alla mína bestu strauma, ásamt þessu litla ljóði sem ort var til Hrafnhildar Kristínar á nafnadaginn 16. ágúst 2009:
Þú komst til mín og minn varð heimur þá
og móður þinnar betri en nokkur annar;
ég hafði aldrei fundið, fyrr né sannar,
hve fagurt er að vera til og sjá
er lítil kinn í geiflum gengur til
og gleður pabba af umli rauður munnur;
þú ert mér lífsins glóð og gleðibrunnur
og gæfa mest. Og eins ég veit og skil
að hún er bundin þeirri líka er þér
kom þreytt í heiminn eftir nóttu langa
og lagði þig að votum sæluvanga
og vafði þig í faðm og gaf þig mér.
Við munum alltaf, elsku vinan besta,
af ást þín gæta, og lífsins tryggð þér festa.
Þú komst til mín og minn varð heimur þá
og móður þinnar betri en nokkur annar;
ég hafði aldrei fundið, fyrr né sannar,
hve fagurt er að vera til og sjá
er lítil kinn í geiflum gengur til
og gleður pabba af umli rauður munnur;
þú ert mér lífsins glóð og gleðibrunnur
og gæfa mest. Og eins ég veit og skil
að hún er bundin þeirri líka er þér
kom þreytt í heiminn eftir nóttu langa
og lagði þig að votum sæluvanga
og vafði þig í faðm og gaf þig mér.
Við munum alltaf, elsku vinan besta,
af ást þín gæta, og lífsins tryggð þér festa.
Fallegt ljóð Sölvi minn. Dýrðaróður til nýs lífs. Ég þakka straumana. Betri í dag og ég mun fara varlega. Bestu kveðjur til ykkar Helgu og litlu drottningarinnar. Pápus.
Post a Comment
<< Home