Saturday, August 29, 2009

 

Gamalt hross.

Ég er enginn gæðingur lengur. Snerpan horfin. Þó vont sé að velta sér upp úr fortíðinni getur það stundum verið gagnlegt.Líf mitt hefur ekki verið samfelldur rósadans. En ég er ekki bitur maður og tel mig hafa verið ákaflega heppinn. Hef örugglega fengið meira af ómældri ánægju í lífinu en erfiðleikum. Til dæmis blessað barnalán. Þegar talað er um gömul hross dettur mér í hug kvæði Davíðs Stefánssonar og það hefur verið mér ofarlega í huga undanfarna daga.

Er ungir folar fitna inn við stall,
sem flestir verða aðeins markaðsvara,
má gamall jálkur líkt og freðið fjall
á fannabreiðum einn og gleymdur hjara.

Hann krafsar gadd, unz kelur hóf og legg,
og koldimm nóttin ógnar sínum gesti.
En stormakófið kæfir brostið hnegg
á klakabörðum útigönguhesti.

Hart er að verða að híma undir vegg
og hafa verið gæðingurinn besti.

Nú er tuttugasti dagur í pest. Það er verulega fúlt. Ég lýsti síðustu ferð minni á læknisfund hér á þriðjudaginn. Þegar ungi doktorinn sagði við mig: Vertu úti góði. Ekki vildi ég eiga líf mitt undir þessum bartskera. Ég er að leita mér ráða. Góður vinur minn var læknaður með sterum af álíka pest. Ég þekki lækninn sem það gerði og er að reyna að ná sambandi við hann. Rólyndi mitt og alkunn geðprýði eru í hættu ef ég fæ ekkert að gert. Það liggur við að hver dagur sé að verða að martröð. Dunda mér þó við minniháttar verk innanhúss. Það drepur tímann. Ég fór á bókasafnið í fyrradag.
Einar Ben., Sjón, Davíð Stefánsson, Agata Cristee og Jóhannes úr Kötlum. Heilt stórskotalið á náttborðinu.
Það er norðangjóla og hitinn rúmar 10 gráður. Ég dreif mig út í morgun til að brjóta upp ræfildóminn. Kimi beið mín við bílskúrinn þegar heim kom og heldur sig hér nálægt mér sem fyrr. Við sendum okkar bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online