Wednesday, August 05, 2009

 

Litla sæta ljúfan góða.

Á laugardaginn var skrapp ég í bæinn til að líta á litlu stúlkuna þeirra Helgu og Sölva. Hún er lítil og sæt með greindarlegt andlit. Ég varð eiginlega aftur jafnundrandi og þegar Ingunn Anna fæddist fyrir 7 árum. Undrandi á, hvað nýfædd börn eru smá. Algjörlega háð foreldrum sínum í einu og öllu. Þau eru fljót að braggast og dafna. Áður en varir verður þessi frumburður þeirra Helgu og Sölva orðin að státinni stelpu. Foreldrarnir geta sannarlega verið stoltir yfir stelpunni sinni. Saga lífsins heldur sífellt áfram og fæðing þessa litla barns er Hösmaga gamla ákaflega kær.

Það er rífandi gangur í laxveiðinni í Ölfusá.Í gærkvöldi voru komnir 330 laxar á land og 62 sjóbirtingar að auki. Megnið af birtingnum er á bilinu 2-7 pund svo það er ekki litil ábót á laxinn.Áin tær og falleg og það stefnir í besta laxveiðisumar í Ölfusá í áratugi. Veðurblíðan varir enn og fyrripart síðasta mánudags þegar undirritaður dvaldi á bakkanum var neðri hluti líkamans hálfsoðinn í vöðlunum. Á seinni vaktinni í Víkinni réð hafgolan ríkjum. Ég krækti í 2 góða laxa og sjóbirting að auki. Fiskarnir mínir úr ánni eru því orðnir 13 í sumar. Það er nú sérdeilis góð tala þó ég sé að sjálfsögðu ekki aldeilis hættur.Hélt heimleiðis glaður í sinni eftir indælan dag á bökkum Ölfusár í ágætum félagsskap. Yfirleitt er ég ánægður með veiðifélaga mína þó þar séu undantekningar eins og í flestu öðru. Ég gerði hálfpartinn ráð fyrir að fara inná Arnarvatnsheiði í dag en af ýmsum ástæðum varð ekki af því. Kannski frestast sú för til næsta sumars en mig langar mjög að koma þarna. Njóta nýrra dásemda við útiveru og veiði. Ánægjan af veiðiskapnum minnkar ekki með áunum og ég vona að ég fái notið hennar í mörg sumur til viðbótar. Ég reyni enn fyrir mér í ánni minni á sunnudaginn og svo taka Veiðivötnin við þann 11. Afkomendur móður minnar, Gunnþórunnar Klöru, ætla að hittast austur í Fljótshlíð á laugardaginn kemur. Þann 12. ágúst næstkomandi eru 100 ár liðin frá fæðingu hennar. Mér verður tíðum hugsað til hennar. Dillandi hlátursins og allra hennar gegnumheilu gæða. Þakklæti er mér alltaf efst í huga. Þakklæti fyrir allt sem ég henni að gjalda. Rólyndið, glaðlyndið og eðlisgreindina.

Eftir rigningu í morgun hefur glaðnað til. Kimi hnusar af blíðunni utandyra og ég er að dunda mér við ýmislegt sem gera þarf. Kannski skvettir hann úr sér seinnipartinn og þá gæti ég laumast út og kíkt eftir nokkrum ormum í viðbót. Lífið gengur sinn gang og ég hef ekki misst trúna á því þó ýmislegt sé mótdrægt eins og stundum áður.
Við kisi minn sendum ykkur öllum okkar bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online