Tuesday, July 07, 2009

 

Sópriðlar.

Margir kannast við það sem danskir kalla hekseskud. Ég kalla það nornaskot.Ein þessara kústríðandi kvenmanna fretaði á mig á laugardaginn. Ég dróst við illan leik til veiða á sunnudaginn. Ég var á að líta eins og níræður öldungur, boginn eftir strit ævi minnar. Eftir hádegið fór ég upp í Haukadal á fjölskyldufund í Gunnarslundi. Það var indælt að venju nema hvað mjóbakið var að kvelja mig. Það sótti líka á mig syfja og slappleiki.Ég fór í fletið klukkan átta og sveif inní draumalandið. Svaf í 8 tíma sem er óvenjulegt, einkum á þessum árstíma. Illu heilli dreif ég mig á fætur og fór út í mína daglegu morgunreisu. Þegar heim kom tók rúmið við mér á ný. Ég var að mestu rænulaus í gær. Mókti og var með daufri rænu annað slagið.Eiginlega tilverulaus eins og þegar skáldið mitt annaðist mig í Lögmannsundi á Þorláksmessu 2004. Matarlystin er horfin. Sem ég má síst við. Lítil löngun í reykinn frá Bagatelló sem gerir ekkert til. Mér finnst það eiginlega svindl að verða veikur á þessum árstíma. Bara hreint ómark. En allt lagast. Ég ætla að halda mig nálægt rúmi mínu í dag. Kíkja öðru hvoru í Konungsbók Arnaldar sem er tíunda bókin sem ég hef lesið eftir hann á stuttum tíma. Þá á ég bara Betty og Harðskafa eftir. Mikilvægast er að ég nái minni góðu heilsu á ný. Hinn rómaði 3jastangadagur er ekki fyrr en þann sextánda og þá vil ég vera eiturhress. Það gæti sem best orðið löndunarbið þann dag eins og í fyrra. Hugsanlega fer ég í Veiðivötn með skáldinu mínu í millitíðinni en það er þó óráðið enn.Þetta er minn tími. Tími brauðs og leikja og afarvont að trufla hann með nornapest. Þó ég sé enn slappur er ég þó að lagast og tel mér trú um að ef ég held mig nælægt fleti mínu verði ég orðinn sæmilegur á morgun. Kimi hefur verið á göltri út og inn í nótt og hvílir nú lúna fætur í gamla tágastólnum. Það hefur skeð áður. Ég skora á sópriðlana að sjá til þess að ég endurheimti heilbrigði mitt í dag. Nær að stinga landsfeður okkar en blásaklausan heiðurmann eins og Hösmaga gamla. Ég vil kraft minn aftur og volæðið burt. Við rauðskinnarnir sendum okkar bestu kveðjur til allra vina. Ykkar Hösmagi.

Comments:
Vonandi ekki svínaflensan ógurlega. Góðan bata og góða skemmtun með Arnald.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online