Wednesday, July 29, 2009

 

Lítið krútt og þolinmæði.

Lítil afastelpa bættist í hóp afabarna Hösmaga gamla á sunnudaginn var. Sölvi og Helga eru nú orðnir ábyrgir foreldrar. Það er mér að sjálfsögðu mikið fagnaðarefni og ég sendi þeim og barninu mínar allra bestu árnaðaróskir. Gangur lífsins heldur áfram. Það er að vísu ekki gott ástand í þjóðmálum hér núna. Villuráfandi sauðir við stjórnvölinn og stjórnarandstaðan engu skárri.Og nú ætlar Björgúlfur Thor að "leita réttar síns" af því það eru allir að ljúga uppá hann. Hvernig væri nú fyrir stjórnvöld að taka á sig rögg og handtaka eitthvað af þessum samviskulausu bófum? Heimildirnar eru fyrir hendi en siðferðiskenndina virðist vanta alveg.
Ég átti veiðidag í gær. Það var þokkalegasta veður og þurrt framan af degi. Vatnið gott en má þó varla minna vera eftir nokkrar kaldar nætur í röð. Þetta varð viðburðaríkur og skemmtilegur dagur. Ég landaði fyrsta laxinum í Víkinni 1o mínútum fyrir 8. Milli klukkan 9 og 10 setti ég í 4 laxa en með einhverjum dularfullum hætti tókst þeim öllum að snúa sig af önglinum. Ég var þó arfaslakur yfir þessu. Miklu skemmtilegra að setja í laxinn þó hann sleppi heldur en að ekkert gerist. Ég náði svo þeim 6. uppúr 10 og fór heim með 2 laxa eftir fyrri vaktina, glaður í hjarta. Þessir laxar voru líka afar fallegir, þykkir og frekar stuttir. Klukkan 4 settist ég að í Klettsvíkinni. Viss um að hann biði eftir mér þar. Svo bara gerðist ekkert þrátt fyrir mína alkunnu snilld með prikið þarna. Ég yfirgaf þennan magnaða veiðistað og hélt uppá Miðsvæði. Þar var allt líflaust líka og Hrefnutangi vildi heldur ekkert gefa. Bak mitt er ekki nógu gott þessa dagana svo ég hélt aftur á dorg á mínum uppáhaldsveiðistað í Ölfusá. Ég var orðinn dasaðaur því mér tókst ekki að sofna í hléinu. Langaði mest heim en eitthvað hélt mér við ána. Ég lagði mig í klukkutíma í grænu þrumunni. Mókti smávegis. Þá var farið að rigna töluvert. Um áttaleitið settist ég aftur á árbakkann. Sömu rólegheitin. Ég nánast píndi mig til að sitja þarna áfram. Korter fyrir 10 var kippt tvisvar í línuna. Og aftur í næsta kasti. Mínúturnar liðu. Tveim mínútum fyrir kom eitt snöggt högg og ég sá sporð. Ég var nánast orðinn trylltur. Ég kastaði síðasta kastinu nokkrum sekúndum fyrir tíu. Færið stoppaði skyndilega en ég fann ekki fyrir neinu.Ofurvarlega reisti ég Herconinn og þá var togað á móti " Hann" var á. Það varð heilmikill darraðardans. Laxinn vildi niður ána en ég vildi hann uppá bakkann. Þetta var óvenjukraftmikill fiskur. Hann varð þó að láta í minni pokann því hann hafði rennt ánamaðkinum niður í maga. Tæplega 6pundari og jafnfallegur og morgunfiskarnir. Hösmagi hélt heimleiðis. Þolinmæðin hafði enn og aftur gefið honum fallegan fisk. Svona dagar gera lífið dásamlegt. Skyldi heilög Jóhanna nokkurntíma hafa kastað fyrir fisk? Það getur varla verið. Kimi fagnaði fóstra sínum að vanda. Ég kastaði teningunum nokkrum sinnum og lagðist í flet mitt rétt fyrir miðnættið. Nú er fremur þungbúið þó hann lafi þurr. Það mætti gjarnan rigna í dag. Fyrir bændur og maðkatínslumenn. Ég held mig að sjálfsögðu heima þessa komandi ferðahelgi. Uni mér næst á bökkum árinnar minnar á mánudaginn kemur. Bestu kveðjur til vina og vandamanna, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online