Friday, July 03, 2009

 

Endurtekið efni.

Á þriðjudaginn var sat ég í sófanum í bílskúrnum, hnýtti tauma og skipti um línu á veiðihjólinu. Kimi kom í gáttina og fylgdist með. Ég held að hann hafi vitað hvað til stóð hjá mér daginn eftir. Fóstri hyggði á veiðar. Um kvöldið kom hann með bráð sína inní íbúðina við lítinn fögnuð minn. Ég á erfitt með að skamma dýrið mitt en ítrekaði að ég vildi ekki að hann dræpi fugla. Lét þar við sitja. Kannski á ég engan rétt á að skamma hann fyrir það sama og ég geri. Veiðieðlið í okkur báðum. Ég hélt svo að bakka Ölfusár þann 1. júlí. Áin hafði litast verulega vegna hitastigsins. Það virtist lítið um fisk og ég varð ekki var fyrir hádegið. Eftir miðdegisblundinn hélt ég svo á efra svæðið og laxinn tók á slaginu 4. Ekta 5pundari sem er sannarlega ekkert slor. Ég náði svo öðrum um sjöleytið og var orðinn alsæll með feng dagsins. Þegar heim kom hnusaði kötturinn af pokunum. Fóstri með 2 og hann bara einn. Um ellefuleitið um kvöldið hvarf Kimi út í sumarnóttina. Um morguninn var komið annað lík inní húsið. Hann hafði jafnað metin. Hann hlustaði á föðurlegar átölur en ég efast um að hann láti sér segjast. Ég verð líklega að leyna áformum mínum varðandi næsta sunnudag. Fara með áætluð laxadráp eins og mannsmorð. Það var svo laxaveisla hjá mér í gærkvöldi. Ég er enn pakksaddur eftir kvöldmatinn í gær. Held svo áfram að borða lax þegar líður á daginn. Það var rólegt yfir veiðinni í gær en menn settu þó í nokkra laxa en þeim tókst öllum að sleppa. Hitinn er nú alveg við 20 gráður og mér sýndist veiðimenn vera fremur rólegir við fljótið í morgun.Þessi fallegi dagur er kærkominn eins og allir hinir. Nóttlaus veröld enn og ég nýt hennar sannarlega. Hyggst ljúka við að bera á vindskeiðarnar á bílskúrnum ef mér tekst að stela mér stiga eins og gerði forðum þegar ég læsti mig úti og komst að lokum inn um svaladyrnar. Ég talaði við báða syni mína í gær og þar kom veiði við sögu. Við feðgar ætlum allir að ná okkur í fisk um helgina. Mér líður vel yfir að hafa átt þátt í að þeir stunda báðir þessa indælu sumariðju eins og faðirinn. Ég er í pólitísku bloggfríi og reyni að ýta þessari sóðatík til hliðar úr hugskoti mínu. Ég hlutaði þó á frábæra ræðu Ögmundar í þinginu í gær. Hún var svo góð að Steingrímur þoldi ekki við og yfirgaf hinn bólstraða ráðherrastól sinn.

Hér er skrúfað fyrir alla ofna og svalara innandyra en utan. Kimi lúrir í gamla tágastólnum. Sennilega dreymandi um bráð hér í grenndinni. Kannski legg ég mig líka á eftir og læt mig dreyma um laxfiska og annað ljúft og skemmtilegt. Kveðjur frá okkur veiðiverum, ykkar Hösmagi.

Comments:
Jæja, hvernig gekk svo um helgina? Vondani gekk þér allavega betur heldur en pabba og félögum hans.

Svo erum við feðgarnir að fara í Veiðivötn næsta sunnudag og ætlum svoleiðis að moka honum inn, maður er svakalega bjartsýnn núna enda aldrei veiðst jafn mikið í fyrstu tveimur vikunum. Ég er allavega orðinn alveg svakalega spenntur fyrir ferðinni, búinn að telja niður dagana síðan í byrjun júní. Kveðja, Eyþór Magnússon.
 
Gaman að fá komment frá þér, Eyþór minn. Ég missti einn ágætan lax í Klettsvík en fékk svo 3ja punda sjóbirting í sárabætur. Það er einmitt gott ráð að telja niður. Bara 5 dagar í túrinn ykkar. Kannski komum við Sölvi inneftir líka en það er ekki alveg afráðið.Bestu kveður til þín frá Hösmaga afa.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online