Sunday, January 03, 2010

 

Blikur á lofti.

Enn er nýtt ár gengið í garð. Einhvernveginn komumst við í gegnum árið 2009 þó margt hafi verið okkur mótdrægt.Margir eru þó enn í algjörri afneitun. Megnið af sjálfstæðis- og framsóknarmönnum eru í þeim hópi. Þrátt fyrir lítið dálæti mitt á núverandi stjórnvöldum væri það allraversta að þessir flokkar kæmust aftur til áhrifa í bráð. Þá fyrst gætum við farið að biðja fyrir okkur. Andi Davíðs svífur enn yfir sjálfstæðisflokknum. Gömlu íhaldsmennirnir munu aldrei læra neitt. Aldrei viðurkenna óumdeilanlegar staðreyndir. Og margt af unga fólkinu í flokknum er á sama rólinu. Framsókn er ekki trúverðug heldur. Arfur Halldórs markar flokkinn enn. Það er ekkert eftir af hinum gömlu gildum þessa flokks. Það má segja að erindið sé þrotið og ekki myndu margir sakna flokksins þó hann liði undir lok. Það er margt sem bendir til þess að átakatímar séu framundan í pólitíkinni og vandséð hvað verður á bráðanæstunni. Kannski er ekki rétt að afskrifa þessa stjórn strax. Stjórnina, sem vill kenna sig við norræna velferð þó lítil merki sjáist um það. Ef stjórnin hefur sig í að snúa sér að aðstoð við heimilin í landinu á þann veg sem fólk vænti eftir síðustu kosningar á hún sjens. Þetta er vel hægt og augljóst að verði það ekki gert mun fara afar illa fyrir mörgum. Steingrímur sagði fyrir kosningar að hann vildi afnema verðtrygginguna. Hann hefur reyndar gert það að einu leyti. Það er búið að afnema vísitölutrygginguna á persónuafslættinum. Stórbrotnar efndir á kosningaloforði eða hitt þó heldur. Það versta við þessi stjórnvöld er valdahrokinn.Deilum og drottnum hvað sem skömm eða heiðri líður. Það hefur hvergi gefist vel að stjórna með þessum hætti. Það vantar líka viljann til að gera upp við fortíðina. Spillingin grasserar enn. Einkum hefur Samfylkingin raðað gæðingum sínum á jötuna. Stjórnsýslulögin þverbrotin daglega. Flokksskírteinið gerir þig hæfan. Hreingerningar er ærin þörf og það strax. Líklega getur maður bara vonað og það er þó jákvætt að geta leyft sér það.

Fyrir mig persónulega verður nýja árið ár baráttu og vonar á fleiri sviðum. Ég er byrjaður í lyfjameðferðinni við meininu efst í vinstra lunganu. Síðan tekur 7 vikna geislameðferð við. Ég held ró minni og bjartsýni. Treysti á hið góða og að lukkan verði mér hliðholl áfram. Ég mun aldrei gefast upp enda engin ástæða til þess. Við eigum frábæra lækna hér á landi og sem betur fer fá margir bata nú sem litla möguleika áttu fyrir nokkrum árum. Það er líka gott að finna samkenndina frá börnum mínum, systkinum og fjölda af öðru góðu fólki. Ég hlakka til dvalar á bökkum Ölfusár og fleiri veiðilendna á næsta sumri. Ástin á lífinu er söm og áður og því fær ekkert breytt. Þrátt fyrir blikur á lofti held ég vonglaður og bjartsýnn inní nýja árið. Það mun örugglega fleyta mér langt. Bestu kveðjur frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Comments:
Baráttukveðjur í glímunni við krabbann.
 
Takk fyrir það.Ég geng til þessarar orustu fullur vonar um sigur. Kannski verð ég hundgamall og þá er mitt aðalmarkmið að verða ekki sínöldrandi og tuðandi gamalmenni.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online