Monday, January 25, 2010

 

Skin og skúrir.

Það er stundum ýmislegt skylt með veðrinu og mannlífinu. Skin og skúrir á báðum stöðum. Það var þannig hjá mér í gær. Rigningarhvolfur annað slagið utandyra og beinverkir innandyra. Komst þó vel fram úr deginum með verkjatöflunum, fór snemma í háttinn og svaf eins steinn. Mjög hress í morgunsárið og hlakka til dagsins. Veðrið kyrrt og sæmilega hlýtt og enn er hugurinn á reiki í kringum veiðiskap. Þrátt fyrir ærið verkefni í baráttunni fyrir betri heilsu gengur lífið sinn gang. Það er mikilvægt að láta ekki slá sig út af laginu og halda sínu striki. Nú fer aðalfundur stangveiðifélagsins að bresta á og þá þarf að velja sér veiðidaga. Sannarlega ætla ég að rótonum upp í sumar, bæði hér í Ölfusá, Veiðivötnum og vonandi víðar. Það er tilhlökkunarefni að væntanlega verðum við 6 saman gaurarnir í Vötnunum í sumar. Gamli Hösmagi, 2 synir, 2 sonarsynir og dóttursonurinn. Svo koma Ingunn Anna, Gústi og Hrafnhildur Kristín síðar.Fiskarnir verða sannarlega að vara sig. Ég ætla með nýtt leynivopn í Vötnin í sumar. Hef trú á að það geti hreinlega ekki brugðist. Það er algjört leyndó enn og ég ætla að fara með það alveg eins og mannsmorð á næstunni. Kannski fá innvígðir pata af því bráðum ef þeir biðja nógu fallega. Ég er eiginlega undrandi á sjálfum mér að hafa ekki reynt þetta áður.
Þó aðalstarf mitt um þessar mundir sé að hamast við að endurheimta mína góðu heilsu þá þarf líka að sinna hinum praktísku hlutum. Lífsbaráttan heldur áfram og skuldirnar gufa ekki upp. Eftir hrunið hefur verðtryggingin séð til þess að ég er aftur orðinn öreigi. Verðmæti íbúðarinnar minnkað og skuldirnar hækkað. Margir eru þó verr settir, því miður. Mér sýnist að þetta muni allt saman fljóta áfram hjá mér. Gamli Lancerinn, 19 ára, rann í gegnum skoðun í gær og græna þruman þarf ekki skoðun fyrr en á næsta ári. Í fyrradag hafði þessi eðalvagn verið í eigu Hösmaga ehf í nákvæmlega 4 ár. Ótrúlegt en satt. Enn sem ný og aðeins ekin rúmlega 8.000 km. pr. ár.
Það er ró og friður yfir okkur Kimi á þessum ljúfa vetrarmorgni.Eftir útiveru og æfingar á handriði svalagangsins hefur Kimi misst meðvitund á ullarteppinu góða. Teppinu, sem þau Helga og Sölvi gáfu mér í hinni eftirminnilegu Edinborgarheimsókn um jólin 2004. Við, þessir vinstrirauðhausar, sem ekki þolum óréttlæti, sendum öllum okkar vinum bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online