Sunday, January 17, 2010

 

Vellíðan.

Veðrið er gott á þessum 17. degi janúarmánaðar. Kimi þrífur klær sínar eftir útiveru í blíðunni. Enn vel sauðljóst þó klukkan sé að verða 5. Mikil rólegheit yfir tilverunni hér í Ástjörn 7. Nú hafa verkjatöflurnar fengið frið í glösum sínum í 4 daga. Það er að sjálfsögðu frábært og bendir til að allt sé á réttri leið. Ég fer í næstu lyfjagjöf á spítalanum á miðvikudaginn kemur. Kvíði því ekkert og er viss um að ég fer létt með það. Lyfin gera að vísu árásir á fleira en æxlið utan á vinstra lunganu. Nú er bara dagaspursmál þangað til ég fer að líkjast sköllóttu steratrölli.Hárið er sem sagt komið á flótta frá höfðinu. Líklega hverfur skeggið líka. Ég ætla þó ekki að láta sauma á mig hauspoka. Þetta verður bara tímabundin fórn. Svo fæ ég kannski aftur mitt dimmrauða skegg. Aðalmálið er að ég ætla með góðri hjálp að ganga að þessu meini dauðu. Ég á svo mikið ógert enn. M.a. verulegt fiskidráp á næstu sumrum. Svo á ég eftir að skammast heilmikið í pólitíkinni. Bæjarstjórnarkosningar í vor og margt bendir til að það verði miklar breytingar hér í Árborg. Ég hef lengi verið þeirra skoðunar að flokkapólitíkin skipti miklu minna máli í sveitarstjórnarkosningum en kosningum til Alþingis. Ég er svo sem óráðinn enn hvað ég muni gera. Nema það er alveg ljóst að ég kýs ekki núverandi meirihlutaflokka.Ég er viss um að nú væri jarðvegur fyrir nýtt skemmtilegt sprengiframboð. Ég bíð. Den tid, den sorg. Kannski verður af þjóðaratkvæðagreislunni. Þessu vonda máli verður að ljúka einhverntíma. Ég vil ekki samþykkja þessar drápsklyfjar sem að mestu munu lenda á barnabörnum okkar. Ég er þó á báðum áttum. Mig langar eiginlega ekki að segja nei heldur. Það mun populistinn á Bessastöðum telja stuðning við sig. Hann getur þó enganveginn falið slóð síðustu ára í blindri þjónkun við glæpamennina sem eiga alla sök á icesave málinu. Við þurfum nýjar leiðir. Nýja stjórnarskrá sem tekur þetta vald af þessu puntembætti. Vald, sem þjóðin fær án atbeina eins manns. Þetta er vel hægt þó það hafi ekki tekist áður. Þetta þarf að gera strax því núverandi húsbóndi á Bessastöðum mun verma þar stóla í 30 mánuði í viðbót. Það sem hann er að gera núna er fyrst og fremst í eigin þágu. Við skulum ekki láta hann komast upp með mikið meira. Íhald og framsókn hampa forsetanum nú. Við vitum nákvæmlega af hverju. Þeir vilja komast aftur að kötlunum. Látum það heldur ekki verða.

Á eftir skipti ég afganginum af harðfiskinum milli okkar heimilislimanna. Í gær las ég bók Hrafns Jökulssonar, Þar sem vegurinn endar. Ákaflega ljúf aflestrar, lýrísk á köflum og hreyfir við hjartanu. Er svo byrjaður á Hótel Californíu eftir Stefán Mána. Lofar góðu. Við rauðliðar sendum ykkur okkar bestu kveðjur úr blíðunni, ykkar Hösmagi.

Comments:
Gaman að hitta þig hressan í gær, við sjáumst von bráðar aftur. Bestu kveðjur til ykkar Kimi, S+familí
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online