Wednesday, January 06, 2010

 

Einn er upp til fjalla,....

öllu viti fjær. Skrýtinn karl með skalla, skerpir gular klær. Nei, þetta á ekki við Steingrím J. þó upphaflega hafi ég verið að snúa út úr kvæði þjóðskáldsins um rjúpuna sem gæðakonan góða greip svo fegin við. Steingrímur var í viðtali við Sigmar í gærkvöldi. Það var engin bilbugur á karlinum og mér virtist hann mjög jarðtengdur í þeirri nýju stöðu sem upp kom þegar ÓRG neitaði að undirrita lögin um ríkisábyrgðina.Það er lán þessarar stjórnar að fjármálaráðherrann er andlit hennar miklu fremur en forsætisráðherrann. Ég er reyndar ekki alveg hlutlaus sem fyrrum flokksmaður og samherji Steingríms.Ég hef gagnrýnt hann mjög harðlega síðustu mánuði og að sjálfsögðu alls ekki sáttur við mjög margt af því sem hann hefur staðið fyrir að undanförnu. Samt sem áður erum við heppin að hafa þennan kjaftfora sveitamann í broddi fylkingar nú á efiðum tímum í sögu okkar. Ég vil ekki níða skóinn af Jóhönnu en það sjá það margir, líka fólk í SF, að það er miklu heppilegra að beita Steingrími fyrir vagninn í baráttunni sem framundan er. Mikilvægast af öllu er að íhald og framsókn nái ekki að skjóta sér til áhrifa. Við vitum nákvæmlega hvað það þýðir. Það versta úr hægri stefnu beggja flokka mun ríða húsum á ný. Fólk hefur vonandi ekki alveg gleymt draugnum og yfirnagaranum sem henti 300 milljörðum út um gluggann rétt fyrir hið endanlega hrun sem þeir félagar voru aðalhöfundar að.Þó þessi ríkisstjórn sem í upphafi vildi kenna sig við norræna velferð hafi valdið mér vonbrigðum á mörgum sviðum þá er alveg ljóst að nú er ekkert skárra í stöðunni en að hún sitji áfram. Ég vona að Steingrímur breyti um taktík. Reyni að ná sáttum við Ögmund og slaki á þumalskrúfunum sem hann festi á Guðfríði Lilju og Ásmund Einar Daðason. Það kemur líka sem betur fer að því að við losnum við populistann sem nú er húsráðandi á Bessastöðum. Manninn, sem árið 2005 sagði útlendingum að þeir hefðu nú lítið séð enn af snilld vina sinna. Mannanna, sem í krafti verka formanna íhalds og framsóknar hafa rústað þjóðarhag og í raun gert alla íslendinga gjaldþrota. Ég ætla að fylgjst grannt með næstu daga og vikur. Þó ég hafi verið orðinn leiður á pólitíkinni eins og svo margir aðrir þá má alls ekki leggja árar í bát. Andvaraleysi gagnvart íhaldi og framsókn má ekki rugla dómgreindina sem þó er eftir.

Það er lognblíða og við Kimi báðir hressir með það. Jólum formlega lokið og nú fer að birta smátt og smátt. Verkurinn út í vinstri handlegginn er horfinn. Það er góðs viti. Aukaverkanir af lyfjagjöfinni eru smámunir einir miðað við marga í sömu stöðu og ég er í. Hið góða er nálægt mér. Ég finn það og það styrkir mig mjög í baráttunni við þetta vonda mein. Næstu mánuðir verða baráttutími. Ég er tilbúinn og ákveðinn í að vinna sigur. Uppgjöf kemur ekki til greina. Ég hlakka til vorsins og sumarsins eins og áður. Kannski aldrei meira en einmitt nú. Bestu kveðjur frá okkur Dýra, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online