Monday, June 08, 2009

 

Stilla.

Gúrkublogg.Klukkan er nú hálfsex að morgni þess 9. júní anno 2009.Það bærist vart hár á höfði. Fremur þungbúið og hitastigið enn undir 10 gráðum. Við Kimi vöknuðum of snemma í morgun. Eða nótt öllu heldur. Ég hleypti dýrinu út í blíðuna og hélt síðan sjálfur sömu leið eftir kaffi og Bagatelló. Ölfusá er ákaflega falleg í dag og veiðileg mjög. Tæpar 2 vikur í að aðallinn í félaginu, ásamt bæjarstjóranum, renni færum sínum í fljótið góða. Undirritaður byrjar svo 1. júlí og mér segir svo hugur að mín alkunna snilld með Herconinn muni bera góðan árangur í sumar. Þá er ég þess fullviss að línur okkar feðga muni stengjast verulega á hinum rómaða 3ja stangadegi þann 16. Það er tilhlökkun í huga gamals veiðimanns. Veiðivötnin eru strax farin að toga og mér finnst líklegt að ég skjótist inneftir fljótlega. Nú er ég ekki bundin af starfi og get valið mér fallegan dag. Græna þruman er alltaf reiðubúin. Svo stendur til að mála bílskúrana hér við blokkina. Í runinni einungis til að breyta litnum svo þeir verði í stíl við blokkina sjálfa. Mig klægjar í puttana eftir að hefjast handa. Okkur Kimi líður einstaklega vel hér og því betur sem lengra líður.
Það gengur heilmikið á í pólitíkinni. Ég ætla þó að verða nokkurnveginn stikkfrí með hana í bili. Mér verður þó hugsað til eins víkinganna sem ég sá nýlega í sjónvarpinu. Brosandi út að eyrum með spúsu sinni um borð í einhverri snekkjunni. Þetta er eigandi Novators sem fékk stórt lán frá Landsbankanum í London. Icesave lán sem við eigum svo að borga. Rannsókn á glæpaverkum þessa hyskis er með hraða snigilsins. Enginn hefur verið settur í járn ennþá þó lagaheimildir séu til staðar.Engar eignir hafa verið frystar þó sömu lagaheimildir heimili það. Ég hef ekki enn afskrifað þessa ríkisstjórn endanlega. Samt ósáttur við mjög margt sem hún er að gera og lætur ógert.
Ég sagði ykkur um daginn frá hinni dularfullu hljómkviðu sem reyndist vera eitt laganna í júróvisjón söngvakeppninni. Fyrir nokkrum dögum gerðist svipað nema að það er varla hægt að segja frá því kinnroðalaust. Ég sat í makindum í stól mínum í stofunni. Gott veður og svaladyrnar galopnar. Þá heyri ég alltíeinu hljóð. Stundum kallað svefnherbergishljóð. Þetta var einhverntímann um kvöldmatarleytið og mér fannst þetta dularfullt.Voru þetta grannar mínir að drekka eitthvað annað en malt? En fljótlega komst ég að raun um að þetta var inní íbúðinni. Einhver skötuhjú að fremja dodo einhversstaðar og hljóðvörpuðu athöfninni í tölvuna mína. Þessi verknaður hefur verið vellukkaður því miklar voru stunurnar. Ég slökkti áður en leiknum lauk og hef það nú sem reglu ef ég vil ekki hafa hljóðið á tölvunni.
Kimi dormar nú með hausinn út um gluggann. Nú verður notalegt að skríða uppí aftur, lesa nokkrar blaðsíður og dorma svo í klukkutíma. Pappírsvinna framundan. Við vinirnir sendum ykkur öllum bestu kveðjur úr morgunkyrrðinni, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online