Monday, June 15, 2009

 

Líf.

Ég var eiginlega búinn að afskrifa Tangavatn. Tómar hrakfarir þangað síðustu árin. Á föstudaginn hringdi ég í frúna og hún sagði mér að þokkalega hefði veiðst á miðvikudaginn. Ég væri velkominn án endurgjalds. Þegar ég fór út í bílskúr víbraði Herconinn og græna þruman brosti með öllu heila grillinu. Þegar ég kom í hlaðið á Galtalæk var farið að rigna þónokkuð. Fremur hlýtt svo það skipti ekki öllu. Tveir veiðimenn úr Sandgerði nýfarnir með 8 fiska sem höfðu tekið spún. Ég hélt glaðbeittur að vatninu og setti undir bus spesial. Sígildur spónn bæði á lax og silung. Fljótlega tók fiskur. Rétt náði spæninum upp við landið. Tveggjapundari sem hefur ekki ætlað að missa af þessu hnossgæti því ég var lengi að losa hann af. Fljótlega setti ég í annan en hann spýtti spæninum út úr sér. Það var kviknað í mér. Loksins, loksins eitthvert líf. Hálftími leið. Setti rækju undir en ekkert gerðist. Ég reyndi aðra spúna með engum árangri. Eftir 2ja tíma barning færði ég mig í austurenda vatnsins. Kastaði spinner og sá fiskinn elta. Bus spesial, salamander og fiskurinn kom bara í humátt á eftir. Þá var bara eftir að kasta rauða hammernum. Stundum reynst ómótstæðilegur. Brátt hafði 3ja pundari bætst við. Og svo kom sá þriðji, líka nokkuð vænn. Það var fjör næsta hálftímann. Margir tóku grannt og burgu lífinu. Ég hélt heim síðla dags með fallega veiði. Þetta var góður dagur og vatnið eins og ég þekkti það í gamla daga. Hér hefur verið silungsveisla frá því á laugardagskvöld. Svo styttist ört í laxinn. Gamli veiðimaðurinn er glaður í hjarta. Vertíðin rétt að byrja og Tangavatnsferðin var bara fyrirboði um það sem kemur.
Ég nenni ekki að blogga um pólitíkina. Sennilega best að gefa henni frí út vertíðina.Í fyrsta sinn í langan tíma steig ég á baðvigtina í gær. Mér er öfugt farið við marga aðra um að vera í sífelldri baráttu við að halda holdum. Ég varð alveg gólandi glaður þegar ég sá að ég er orðinn yfir 70 kíló. Það hefur ekki gerst í nokkur ár. Þetta er bara andskoti efnilegt. Kannski er það bandaríski kornmaturinn, kanilsnúðar og kleinur sem gera þetta að verkum. Þó hef ég líklega létst um nokkur grömm í morgun. Ég fór á spítalann og lét skera smáflyksu úr vinstri löppinni. Kunni ekki við að hafa hana þarna. Saumarnir verða svo teknir í næstu viku.Ungi doktorinn gerði þetta af stökustu vandvirkni og ég hélt glaður á brott og fékk mér kaffi hjá Grétu. Sá rauðbröndótti liggur hér á gamla tágastólnum og sefur fast. Ég ætla að bregða mér bæjarleið í góða veðrinu. Sækja mér meira lestrarefni á bókasafnið góða sem nú heldur uppá 100 ára afmælið. Með bestu kveðju frá mér og ketti mínum, ykkar Hösmagi.

Comments:
Gaman að heyra þetta með Tangavatnið. Sjálfur er ég orðinn glóandi glaður við tilhugsunina um að komast brátt í veiði. Ég mun eyða tæpri viku við Apavatn í sumar, hafði svosem ekki gert mér miklar væntingar um að þar væri bröndu að fá, en las í gær grein um fólk sem var þar nýlega og veiddi vel bæði af bleikju og urriða. Sá myndir og þetta eru sæmilegustu fiskar. Ég hyggst því eyða þessari viku meira og minna úti í sjálfu vatninu. Bestu kveðjur á Selfoss, SBS
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online