Monday, June 22, 2009

 

Mjór er.....

mikils vísir. Fyrsti laxinn úr Ölfusá þetta sumarið kom á land í gær. Veiddist í Víkinni á seinni vaktinni. Hann var 3 kg. og 72 centimetrar og því fremur mjósleginn. Fallegur fiskur samt sem áður. Ég held að mokið byrji ekki fyrr en 1. júlí. Þá ætlar undirritaður að planta sér á bakkann og róta upp laxfiskum. Stórum aðallega, en smærri í bland. Fátt er meira lostæti en nýveiddur fimmpundari úr Ölfusá. Áin er tær og fremur lítið í henni. Þetta er þó sama stórfljótið og áður og lítil hætta þó þurrkatíð verði. Nú er bara vika í skáldið og heitkonuna og aldrei meiri spenningur en nú að hitta þau.Litlan fylgir með. Ljúfir dagar framundan og jónsmessunóttin að bresta á. Það skyggir aðeins svona í hálftíma eftir miðnættið og þá er albjart aftur. Ég mun seint þreytast á að dásama þennan árstíma. Hina nóttlausu voraldar veröld. Það er þess virði að þrauka af vetur og vond stjórnvöld til að upplifa enn eitt sumar á ísaköldu landi. Ef spáin gengur upp fer ég í maðkinn þarnæstu nótt. Það er veiðiskapur út af fyrir sig. Skæð beita, maðkurinn. Það er líka óhemjuskemmtilegt að veiða á túpuna og spúninn.Það er bara óskaplega gaman að veiða. Ég er einkar stoltur yfir að hafa smitað syni og sonarsyni af þessari bakteríu. Hefði örugglega getað gert þeim eitthvað verra. Nú er Kimi mættur inn aftur og varla friður við tölvuna. Malar og vill endilega þrífa skegg mitt. Gott að eiga svona góðan félaga þó ekki sé hann margmáll. Skilur þó margt sem ég segi við hann. Að mestu þægur og hlýðinn. Og svona allt í einu. Eftir símtal er Veiðivatnaför afráðin í dag. Það verður yndislegt að koma inneftir í þessa margrómuðu paradís. Sem sagt gott og bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online