Sunday, June 28, 2009

 

Fiskinn minn...

nammi nammi namm. Í gær voru 36 ár liðin frá því ég veiddi fyrsta laxinn minn. Og 22 ár frá stórveiðinni á halta hanann. Þessi afmælisdagur föður míns sæla hefur löngum reynst mér drjúgur við veiðiskapinn. Það hefur verið ljúft að koma að ánni undanfarna góðviðrisdaga. Hitinn hér er nú kominn í 18 gráður og þetta gæti orðið heitasti dagur ársins til þessa hér á Selfossi. Að kvöldi gærdagsins voru komnir 14 laxar á land úr fljótinu mínu góða. Ekkert mok en vel ásættanlegt í júnímánuði.Ég hygg gott til glóðarinnar næstkomandi miðvikudag. Ákveðinn í að gefa túpunni góðan tíma. Fyrst verður það æskrím étur hann, síðan rauða hættan, Kolskeggur og Collie dog. Það voru stórveiðimenn sem hófu veiði í morgun. Fremstir í fylkingu Viktor Óskarsson og Sveinn Þórarinsson. Veðrið frábært og vatnið eins og það best getur orðið. Það er svo spáð rigningu seinnipartinn og kannski get ég önglað upp nokkrum ánamöðkum eftir miðnættið. Þrátt fyrir kreppu, stjórnvöld sem ég hef orðið fyrir vonbrigðum með og óskemmtilegar spár um framtíðina ætla ég að njóta þessa sumars. Ekki hleypa neinu volæði að.Veiða sem mest í byggð og til fjalla. Mér fannst um daginn eins og áhuginn væri að dofna. En Tangavatnsförin sannaði annað. Það var ljúft að renna í Veiðivötnin á mánudaginn var. Hitti Bryndísi vinkonu mína. Veiðivörðinn sem alltaf virðist vera í góðu skapi. Einnig nokkra veiðimenn sem voru alsælir með tilveruna í paradís hálendisins. Afli ágætur og veðrið sömuleiðis. Og græna þruman naut sín vel í þessum ágæta túr. Ég held að þessi ólmi gæðingur hafi glaðst yfir að koma mér inní draumalandið í Veiðivötnum þó Herconinn hafi verið skilinn eftir heima. Hans tími kemur á miðvikudaginn. Kimi nýtur tilverunnar til fullnustu þessa yndislegu sumardaga. Hnusar af grösum og er ekkert mannlegt eða dýrslegt óviðkomandi.Hann var nálægt fóstra sínum á föstudaginn þegar við tókum aðra yfirferð á bílskúrnum. Nú er guli liturinn horfinn og engin eftirsjá að honum. Ég mála svo vindskeiðarnar í vikunni.Það er semsé allt hið besta að frétta úr Ástjörn 7. Annað kvöld koma svo Sölvi og hin þungaða heitmey hans til landsins. Brauð og leikir sumarsins í algleymingi á næstunni og bágindi og kreppa send út í hafsauga. Ég og Dýri sendum nóttlausar sumarkveðjur til allra vina, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online