Monday, November 16, 2009

 

Síðustu dagar.......

móður minnar er góð bók. Ég er reyndar ekki alveg hlutlaus dómari.Skáldið mitt gaf mér bókina á mánudaginn var. Áritunin ákaflega falleg og gladdi gamlan föður. Ég hef hugsað margt við lestur bókarinnar. Þó ég hugsi orðið að mestu framávið núorðið er líka óhjákvæmilegt að horfa stundum til baka. Þegar mér var tilkynnt fyrir rúmum tveimur árum að ég væri með krabbamein var fyrsti þankinn sá að ég yrði að skipuleggja það sem ég þyrfti að gera áður en ég myndi deyja.Svo fór ég í ríkið og náði mér í öl og snafs. Samt langaði mig eiginlega ekkert í áfengi. Það fór líka svo að þetta varð ekki stórdrykkja. Ég einbeitti mér að batanum. Og þegar ég kom heim af spítalanum keypti ég mér nýjan flatskjá fyrir jarðarfararpeningana. Ég hef líka farið miklu lengra til baka. Til mánaðanna desember 1985 til maí 1986. Þá lá ég tíðum á dauðadeildinni 11 G á landsspítala. Kynntist þar mörgum sem voru að deyja. Ég undraðist æðruleysi þessa fólks og það kenndi mér margt.Það besta við þessa nýju skáldsögu hans Sölva míns er að hún er ljúfsár. Ljúf og í senn sár. Tregafull og líka full af húmor. Sannarlega get ég tekið undir með Steinari Braga og Auði sem tala um mergjaða sögu og ofboðslega sérstaka. Þau Dáti og Eva voru indælir förunautar í síðustu viku. Ég hef sjálfur margreynt að það er hægt að láta sér líða afskaplega vel í eigin kvöl. Furðulegt en satt. Ég er viss um að ég hefði notið mín vel innanum allt kartöflubrennivínið og á hasssafninu.Bestu þakkir Sölvi minn.

Lífið gengur sinn vanagang hjá okkur Kimi. Pólitíkin jafn andstyggileg og svo oft áður. Fæ mig varla til að minnast á hana.Nú bíð ég eftir símtali frá Borgarspítalanum. Ég er þó ekkert stressaður. Ég bíð bara eftir að losna við þennan leiðindaverk.Síðustu ferðir mínar á spítalann færðu mér heim sanninn um að enn eigum við frábært starfsfólk í heilbrigðisgeiranum. Einkum blessað kvenkynið.Samt er maður alltaf jafn feginn að komast heim aftur. Bestu kveðjur frá okkur vinunum, ykkar Hösmagi.

Comments:
Gaman að heyra að þú naust lestursins. Veistu annars hvort hún er komin í búðir á Selfossi? Bestu kveðjur, Sölvi
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online