Sunday, November 01, 2009

 

Morðæði.

Alveg er yfirgengilega sorglegt að fylgjast með fréttum af stríði nokkura manna gegn fáeinum rolluskjátum í fjallinu Tálkna fyrir vestan.Þetta ku vera erfitt land til smölunar og allt frá 1950 hefur verið þarna hópur af kindum allt árið. Ekki verður annað séð en að dýrin hafi lifað léttilega af öll vetrarveður og haft nóg í sig að éta.Fyrir 4 árum var gerð ásás á þessar skepnur. Þyrlur voru notaðar til að skjóta dýrin úr lofti og hræin látin liggja þar sem þau voru komin. Kannski voru sum þeirra marga klukkutíma að berjast við dauða sinn. Það kom ekkert við góðmennin sem stóðu fyrir þessum líknarverkum. Rökin voru að mannúðarsjónarmið knýðu menn til að haga sér með þessum ótrúlega hætti. Blessuð dýrin gætu liðið skort þarna. Umkomulaus og án hirðis. Þetta eru þó bara yfirgengileg níðingsverk, auk þess að vera gróf brot á lögum um dýravernd. Það eru sérkennileg vinnubrögð að þverbrjóta lög og réttlæta það með því að þykjast vera að framfylgja sömu lögum. Það hefur komið í ljós að þessi dýr sem fönguð voru nú eru í mjög góðum holdum. Þeir sem best til þekkja á þessum slóðum telja þar nóg til að bíta og brenna. Af hverju mega ekki nokkrar kindur ganga um villtar og njóta frelsis síns? Hvað með hreindýrin, minkinn og refinn? Gætu þessi dýr ekki soltið líka? Þurfa dýravinir að safna liði til að koma þessum skepnum til varnar og hjálpar? Ég er bálvondur yfir þessum hryðjuverkum og lýsi mikilli andstyggð á fólkinu sem fyrir þeim stendur. Það eru nokkur dýr lifandi ennþá. Stöndum vörð um þau og lofum þeim að lifa í friði.

Nóvember heilsar með svölu og fallegu veðri. Sólin skín, hitinn 2 stig og trén bærast varla. Það er ró og friður hér í Ástjörn 7. Allavega yfir íbúunum í íbúð 205. Í síðustu viku varð ég að vera fjarverandi í rúman sólarhring. Kimi einn næturlangt. Hann beið með hausinn út um gluggann þegar ég renndi í hlað undir kvöld á fimmtudag.Hann gerði enga tilraun til að leyna fögnuði sínum yfir endurheimtunum á fóstra sínum. Við gengum svo snemma til náða og allt komst á sama stig og venjulega.Í gær áskotnaðist mér kjöt úr Selvoginum. Þar eru beitarlönd góð og andi Eríks Vogsósaprests hvergi horfinn enn. Stórt sauðalæri verður heimareykt hér í nágrenninu og ég fæ strax vatn í munninn við tilhugsunina um jólamatinn. Það verða engin kreppujól hjá mér hvað mat varðar og Kimi fær bæði humar og harðfisk. Hann lúrir nú í einkafleti sínu í svefnherberginu. Gamall veiðimaður og köttur hans senda öllum vinum bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments:
Það er sorglegt til þess að vita að örfáum dýrum í hæðunum á heimsenda, við nyrstu mörk byggðar í Evrópu, skuli vera sýnd viðlíka grimmd af engum sökum. Hér stýrir ekki einu sinni gegndarlaus gróðafíknin verknaði; bara illskan og vonskan.

Gróðurlausir tindar á nyrsta hjara bera ekki skaða af þessum fáu kindum. Manni verður illt af því að vita af aumingjaskap þeirra mannvera sem ráðast að saklausum rollum með byssum.

Sumpart finnst manni þarna kristallast versta hlið okkar blessuðu þjóðar, morðeðlið sem beinist að hinu sérstaka, grimmdin sem beinist að þeim sem eru minni máttar, og heimóttarskapurinn sem knýr fólk á risavöxnu landsvæði með 6000 íbúum til að ráðast gegn nokkrum rollum. Ég hef nú alltaf verið dýravinur og músaryndill mikill þegar kemur að skepnuást en föðurhlutverkið og ástin á dóttur minni hefur valdið því að mér er enn fyrirmunaðra að skilja hvernig hægt er að ráðast gegn holdi og blóði sem hreyfir sig, jafnvel þótt það sé klætt í smá ull, og á sér einskis ills von: vill lifa í sátt við himin og jörð.

Við erum auðvitað bændaþjóð og höfum þurft að venja okkur við ákveðið kaldlyndi gagnvart náttúrunni og hennar undrum.

Íslendingar eru bara hryllilega heimskir sem þjóð, þótt við séum það ekki hvert og eitt út af fyrir sig; heimskan þrífst í einstæðingsskapnum og óttanum. Gísli á Uppsölum var eflaust góður maður og Bjartur í Sumarhúsum líka, innst á bakvið kalkskemmdirnar og skyrbjúginn sem settii skemmd í beinin. Þeir eru fyrirmynd allra Íslendinga, til dæmis Gillzeneggers. Gillzenegger er Gísli á Uppsölum með lóð og internet sér til stuðnings.

Smæðin nærir heimskuna og skynleysið. Barbaranum er ekkert heilagt, hvort sem málið snýst um að gefa skít í svosem eins og þrjár kynslóðir landa sinna eða myrða dýr sem hafa af dugnaði skapað sér líf við erfiðar aðstæður; Bjartur í Sumarhúsum er eilífur.

Bestu kveðjur til ykkar Kimi, Sölvi
 
Reyndar held ég að Gísli hafi verið mikill menningarsinni og það hafi verið Ómar Ragnarsson sem tróð upp á hann þessari sérvitringsmynd. Gísli var ábyggilega einmitt að flýja heimskuna í kringum sig.

Voðalega eru menn annars orðnir soft eitthvað. Er næsta skref að fara að veiða með agnhaldslausum flugum eins og Bubbi?

Annars finnst mér nú samt eiginlega sorglegast, með fullri virðingu fyrir rollunum, að þær virðast eiga meiri samúð meðal þjóðarinnar en íraskir flóttamenn sem ríkisstjórn Íslands rekur burt af fullkominni mannvonsku og algjöru tilgangsleysi. Það virðist flestum vera sama um það enda eiga Íslendingar, held ég, heimsmet í sjálfsvorkunn og er sama um flest annað.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online