Sunday, November 22, 2009

 

Myrkurkyrrð.

Kimi hamast við að þrífa sig. Situr í glugganum og lítur annað slagið út í vetrarmyrkrið. Jólaljósin eru reyndar komin upp nokkuð víða.Ég ætla líka að vera fyrr á ferðinni en venjulega með nokkrar perur. Maður birtunnar sem jafnan fyrr. Helgin hefur verið róleg. Ég vona að mér fyrirgefist að hafa sofið af mér útgáfuteiti skáldsins míns á laugardagskvöldið. Vaknaði þegar það var að byrja.Brjóstverkurinn hrjáir mig enn og ég reikna með að fara 5tu ferðina á Borgarspítalann í vikunni.Ég ætla mér að ná góðri heilsu á ný.Enginn bilbugur á mér hvað það varðar. Þrátt fyrir kreppu og misvitra stjórnmálamenn er lífið enn skemmtilegt. Margir óveiddir fiskar. Nýjasta viðurnefni mitt, tengt fiskum, er Lúðuhrellir. Mér áskotnaðist það í áritun skáldsins á Síðustu daga móður minnar. Ég held líka að ég hafi hrellt stóra lúðu úti á Faxaflóa síðastliðið sumar. Hún hefur stækkað síðan og verður enn stærri þegar ég næ henni næsta sumar.Þá verður hægt að blása til lúðuveislu á svölunum í Ástjörn 7. Grilluð lúða og nokkrir dropar af Stroh með.Það er aldrei of seint að halda innflutningspartý. Kimi verður heiðursgestur á eigin heimili og fær humar en ekkert Stroh. Er þetta ekki bara myljandi góð hugmynd?

Það er smágjóla af norðan. Engin merki um snjókomu á næstunni og því varla hægt að kvarta neitt.Við Kimi höldum okkur inní hlýjunni og bíðum birtu dögunar.Viðgerð á grænu þrumunni loksins áformuð eftir óhappið um daginn. Afturljósið komið frá USA. Þessi eðalvagn verður ánægður eftir meðhöndlun Helga Sigurðssonar sem er afar flínkur bílameistari. Við vinirnir, þessir rauðu, sendum bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online