Tuesday, October 09, 2012

 

Langafaskott.

Litla langafastelpan mín fékk nafnið Álfrún Klara á sunnudaginn var.Bæði nöfnin að mínu skapi. Klörunafnið alltaf verið mér afar kært af skiljanlegum ástæðum. Sumir trúa á að ákveðnum nöfnum fylgi máttur. Ég gæti best trúað að það væri rétt og vona að litla krúttbomban fái marga góða eiginleika frá móður minni sælu. Það var mikið fjölmenni við nafngjöf litlu stúlkunnar. Foreldrar og ýmsir vinir þeirra, ættingjar þeirra í báðar ættir, 2 ömmur, 2 afar, skáafi og skáamma, 4 langömmur og svo Hösmagi gamli langafi. Þetta var hátíðisdagur góður og Sölvi minn varð 34 ára. Finnst nú ekki langt síðan ég hélt honum nýfæddum í fangi mér og alltaf herðir gangrimlahjólið á sér. Enn er tíðin ágæt og engin merki um snjó á bráðanæstunni. Tek alltaf mark á Páli Bergþórssyni hvað veður varðar. Hann spáir fremur mildum vetri enda séum við nú á hlýindaskeiði. Síðasta sumar var alveg sérstaklega gott og hitastigið hér á Selfossi var oft 15-20 gráður vikum saman. Kolbakur lét sig gjarnan hverfa snemma morguns og gaf sér varla tíma til að éta. Birtist svo seint á kvöldin og tók þá rösklega til matarins. Nér er hér hið mildasta veður og hitinn nærri 10 gráður en myrkrið er svart. Eftir 11 daga er skoðanakönnun um það sem kallað er " ný stjórnarskrá". Andleg afurð nokkurra frekjudalla sem eiga það mest sameiginlegt að hafa enga menntun á sviði stjórnskipunar- og stjórnarfarsréttar. Allt er þetta ferli sorglegra en tárum taki.Og það versta er að margir telja að þetta muni skila þjóðinni einhverju. Þetta fólk gæti alveg eins bannað siðblindu á stjórnarskránni. Þú breytir ekki gangi himintúngla með því að stilla úrið þitt. Ég vona reyndar að nógu margir átti sig á þessu húmbúkki og láti þessa skoðanakönnun lönd og leið. Það er grátlegt að búið sé að eyða mörghundruð milljónum í þessa sýndarmennsku og það á meðan ekki er hægt að endurnýja brýnustu tækin á Lsp. Ég held að 1. greinin gæti alveg eins hljóðað svo: Ísland er bananalýðveldi með óstjórn. Við sjáum hvað setur en eitt er víst að þetta "frumvarp" mun aldrei verða að íslenkri stjórnarskrá. Við Kolbakur sendum bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online