Tuesday, September 21, 2010

 

Haust.

Það er komið haust og jafndægur á morgun þann 23. Veðrið er indælt, logn og hitinn 2.8 gráður. Ævintýraleg birta af fullu tungli. Ölfusá hálfdraugaleg að sjá í tunglsljósinu. Veiði þar lauk í fyrradag og varð heldur endaslepp eftir feykigóða byrjun. Mikil sólbráð og hiti, ásamt öskugráma stórspillti veiðinni. Samt veiddust 283 laxar og allnokkuð af góðum sjóbirtingi. Ég er sæll með mína 18 laxa og 2 sjóbirtinga. Mín besta veiði í mörg ár og að auki var Veiðivatnatúrinn ógleymanlegur. Nú hefst aftur nýr meðgöngutími. Ég hef gefist upp á Tangavatni. Var þar á laugardaginn. Að sögn hafði fiski verið sleppt þar daginn áður. Hann var samt hvergi sjáanlegur. Vatnið kólnaði eftir jarðskjálftana árið 2000 og kannski hefur jörðin gliðnað þannig að fiskurinn kemst í fylgsni þar sem útilokað er að komast að honum. Mér finnst þetta hálfsorglegt, því ég á margar skemmtilegar minningar frá þessum stað. Það er lítið skemmtilegt að leggja á sig ferðalög, borga veiðileyfi og svo er fiskurinn í felum. Nú er bara að þrauka og bíða eftir nýjum æfintýrum næsta sumar.Mánuður í formlegan vetur og lífið gengur bara sinn gang. Ágæt heilsa og ég hugsa lítið um meinið í brjósti mér. Ég fer í rörið á mánudaginn og svo í viðtal í október. Kvíði engu og vona það besta eins og jafnan fyrr. Það hefur löngum reynst mér heilladrjúgt.
Kisi liggur nú hér á borðinu og malar. Óskaplega sæll eftir að ég fann eina af hinum fornu flískúlum í gær. Dró ísskápinn fram til afísunar og þar leyndist ein undir. Svo var ég svolítið montinn með mig að hafa haft mig í þetta. Nú er skápurinn eins og þegar hann kom úr búðinni. Einbúinn verður að bjarga sér sjálfur með allt á heimilinu. Það gengur furðuvel á þessum bæ. Sem sagt allt gott héðan og við Kimi sendum kveðjur. Ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online