Saturday, March 27, 2010

 

Ljúfur laugardagur.

Vika liðin frá vorjafndægrum.Birtan ræður ríkjum. Hitinn er reyndar nýskriðinn uppfyrir frostmarkið svo það er eiginlega gluggaveður. Snemma morguns var hér 3ja stiga frost og norðangjóla. Það var bara hressandi að viðra sig. Raikonen tolldi þó ekki úti nema stutta stund. Betra að hlýja sér í nálægð fóstra síns. Nú safna ég veiðidögum eftir bestu getu. Það sem nú er í húsi í laxinum í Ölfusá er 1 dagur í júní, 7 í júlí og 7 í ágúst. Tveir sólarhringar í Veiðivötnum með sonum, sonarsonum og dóttursyni 10. - 12. ágúst.Þá eru uppi áform um að sækja nokkra fiska inná Arnarvatnsheiði en þangað hef ég aldrei komið. Ég hef aldrei verið staðráðnari en einmitt núna, að njóta komandi sumars til fullnustu. Ég verð að treysta á veðurguðina eins og aðrir og hef á tilfinningunni að það verði gott veður á ísaköldu landi sumarið 2010. Einhver gæti ályktað út frá þessu að ég telji þetta sumar mitt síðasta og því enn meiri ástæða til að nýta það vel. Því fer þó víðsfjarri. Ég er sannfærður um að ég er að komast yfir veikindi mín. Næsti mánudagur er lokahnykkurinn á geislameðferðinni. Það verður 55. ferðin mín til Reykjavíkur frá því þetta ferli byrjaði. Ég hlakka til mánudagsins og heimkomunnar. Þetta hefur tekið á og er mikið álag á gamlan skrokk. En þetta hefur líka gengið frábærlega vel.Það er eitthvað gott í kringum mig. Læknirinn minn og allar konurnar sem hafa snúsit í kringum mig þennan tíma hafa reynst mér ákaflega vel. Ég hef líka hitt fullt af fólki í svipuðum sporum og það er líka ágætt. Nú bíð ég bara rólegur næstu vikurnar og fer svo í aðra sneiðmynd. Nýt hvíldar um páskana og hugleiði lífið og tilveruna. Ekkert hefur haggað ró minni síðan þetta kom upp í haust. Það er mikilvægt að gera sér hlutina ekki erfiðari en þeir þurfa að vera. Ég hef líka verið afar heppinn. Þolað lyfin og geislana betur en margir aðrir þó ég gangi bara á öðru nýranu og hafi ekkert milta. Lífið heldur áfram og það er dásamlegt.
Kimi er farinn að hrjóta á teppinu hér fyrir aftan stólinn minn. Ég hyggst bregða mér út í búð í gjólunni.Það verður reykt nautatunga á borðum hjá mér í kvöld. Ódýr og ljúffengur matur. Á þriðjudag verður svo sameignleg máltíð hjá okkur Kimi. Humar á 5 ára afmæli þessa ljúfa vinar. Við sendum ykkur okkar bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online