Sunday, February 21, 2010

 

Nepja.

Svolítið kalt í morgunsárið á þessum fallega sunnudegi. Frostið um 5 gráður og gjóla af norðan. Bleik slikja á fjallinu góða og löngu orðið albjart. Kimi sefur í gamla tágastólnum og dreymir um mýsnar í haganum. Þær eru óhultar rétt á meðan.Nú hef ég lokið u.þ.b. einum fjórða hluta af geislameðferðinni á Lsp. Þetta gengur mjög vel og aukaverkanir í lágmarki. Ekkert mál fyrir mig að keyra á milli. Spáin út mánuðinn sýnir enga úrkomu svo þetta verður leikur einn. Þegar vikunni lýkur verð ég búinn með 14 skipti og svo verða ferðirnar í mars 21. Ég fer líka í lyfjagjöf einu sinni í viku og það má segja að þetta sé eiginlega fullt starf hjá mér. Ég er svo heppinn að hafa aldrei haft ofnæmi fyrir neinu. Nema náttúrlega Davíð, Halldóri og nokkrum öðrum. Sumir sem ganga í gegnum þetta verða fárveikir. Ég hef góða matarlyst og nota svo verkjatöflurnar suma daga en aðra ekki. Skal þó viðurkenna að ég verð feginn þegar þessu lýkur. Meinið verður myndað að nýju einhverntíma í mars. Kannski verður það fjarlægt með skurðaðgerð eftir allar árásirnar á það. Ekkert nema fullur bati kemur til greina. Lífsviljinn og baráttuandinn fyrir honum eru alveg óskertir. Ég er jafnbjartsýnn eins og ég hef alltaf verið. Hugarfarið skiptir miklu máli. Það hefur ætið fleytt mér langt. Þekki ekki hugtakið uppgjöf. Þrátt fyrir erfiðleika nýt ég lífsins eins og áður. Nú höfum við þraukað Þorrann og Góan byrjar ágætlega. Mánuður í vorjafndægur og bráðum byrjar hann að vaka á vötnunum. Sannarlega er ég ákveðinn í að njóta vorsins og sumarsins við útiveru, veiði og aðrar dásemdir. Gleyma pólitík og öðrum leiðindum sem mest ég get. Það er afar friðsælt hér í Ástjörn hjá okkur kisa mínum. Notalegt að hafa þetta dýr í grennd við sig. Ekkert þref né þras og við bætum hvorn annan upp. Sendum ykkur okkar albestu kveðjur með norðangolunni, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online