Wednesday, October 24, 2007

 

Ilmurinn er indæll.....

og bragðið eftir því. Ég held að þetta sé gömul auglýsing fyrir ákveðna kaffitegund. Undirritaður hefur á undanförnum árum gert sér grein fyrir því að kaffi er ekki sama og kaffi. Lengst af hugsaði ég ekkert útí þessa hluti. Svo fór ég að prófa mig áfram. Komst upp á lagið með að drekka kaffi Diletto. Ágætt kaffi frá Johnson og Kaaber. Svo kom Maxwell House. Nokkuð gott. Næst kom að því að prófa nýja kaffið sem möndlað er suður á Romshvalanesi. Kaffið frá Kaffi-Tár. Byrjaði á Morgundögginni og fór svo í Kvöldroðann. En hann höfðaði ekki til mín. Ég neyðist reyndar til að drekka eitthvert bölvað hland í vinnunni. Merrild eða eitthvað í þá áttina. Kannski tekst mér að breyta því. Með undirróðri og sálfræðitrikkum.
Morgundöggin fæst a.m.k. í 2 verslunum hér á staðnum. Bónus og Nóatúni. Það hafa oft verið rök ákveðins hóps kaupmanna eð það megi ekki bera saman verð á vörum í Bónus og öðrum verlsunum vegna þess að vörurnar í Bónus séu aðallega rusl. Allt önnur vörumerki sem ekkert sé varið í. Þetta fær ekki staðist. Bestu dæmin er þekktar vörur eins og gosdrykkir, mjólk, rjómi og kaffi. Það er nákvæmlega sama kókið í flöskunum hjá Nóatúni og Bónus. Og sama innihaldið í kaffipökkunum með Morgundögginni. Ég kaupi 500 gr. af Morgundögg í Bónus á 445 kr. En ég kaupi ekki sömu 500 gr. í Nóatúni á 698 kr. Af hverju ætti ég hreinlega að láta ræna mig inní verslun um hábjartan dag. Verðmunurinn er 57% . Þetta er kannski bara einn hluti af öllum djöfulganginum í kringum þá Bónusfeðga. Fyrir mér er þetta einfalt. Enda er ég ekki að bera saman verð á Fíat og Jeep Grand Cherokee.

Uppstytta hér í augnablikinu. Ég vildi gjarnan að nánast stöðugri rigningu hér nú um stundir yrði beint til Kaliforníu. Við Kimi slakir og enn í sigurvímu eftir sunnudaginn. Hlakka til helgarinnar eins og svo oft áður. Hvíld og slökun. Allt á réttri leið eins og hjá íhaldinu forðum. Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments:
...vona samt að allt sé ekki á sömu leið og hjá íhaldinu í Reykjavík að undanförnu.
 
Það var nú snúið út úr þessu kjörorði íhaldsins í sínum tíma. Það var talið vera á léttri reið. En það má sannarlega segja að reiðin sé ekki létt nú um stundir. Bara ringulreiðin ein. Bestu kveðjur til ykkar.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online