Wednesday, October 17, 2007

 

Flokkslaus maður.

Ég sagði um daginn að ég væri orðinn flokkslaus aumingi. Ég hef þó enn áhuga á stjórnmálum og lífsskoðanir mínar eru óbreyttar. Ég hef ekki mikla trú á hinum nýja meirihluta í höfuðborginni. Hann er þó að því leyti skárri en sá fyrri að hann hefur meirihluta atkvæða á bak við sig. En ekkert má út af bera. Ekki vildi ég stýra meirihluta sem annarsvegar veltur á Birni Inga og hins vegar á Margréti Sverrisdóttur. Þarna var sögulegt og gott tækifæri á að losna við Framsókn úr borgarstjórninni. Ef VG hefði myndað meirihluta með íhaldinu hefðu hlutföllin orðið 9 gegn 6. Þá hefði ekki dugað fyrir einn borgarfulltrúa íhaldsins að vera með múður og hótanir. T.d. mann eins og Gísla Martröð. Það sem langbest hefði verið fyrir Reykvíkinga var að blásið hefði verið til nýrra kosninga. Þar sem íhaldið er með allt niður um sig, Framsókn á svipuðu 5-6% róli og frjálslyndir margklofnir og alveg á rassgatinu, hefðu SF og VG örugglega náð hreinum meirihluta í borginni. Það hefði verið góð leið fyrir þessa flokka til að sanna að þeir gætu unnið saman. Tekið ærlega til og ýtt mestu spillingaröflunum til hliðar. Þá hefðu þeir líka endanlega losnað við Alfreð Þorsteinsson. Og spilltasta stjórnmálaafl landsins, framsóknarflokkurinn, hefði fengið hina endanlegu hvíld. Sá flokkur er fyrir löngu orðin tímaskekkja í stjórnmálum á Íslandi. Ekkert sannar það betur en menn á borð við Finn Ingólfsson , Alfreð Þorsteinsson og Björn Inga. Og ég gæti nefnt marga í viðbót. Fólk hefur alltaf verið fljótt að gleyma þegar pólitík er annarsvegar. Ef þessi nýi meirihluti lafir út kjörtímabilið fær íhaldið góðan tíma til að ná vopnum sínum á ný. Það er nú í algjörri forystukreppu í höfuðborginni. Klúðrið undanfarnar vikur sannar það betur en nokkuð annað. Tími VV er að renna út. Kannski tók hann nú töluverðan þátt í að grafa sína eigin gröf sjálfur. Varla heldur fólk að Martröðin muni nokkkurntíma verða höfuð íhaldsins í borginni. Það væri að vísu mjög gott fyrir andstæðinga flokksins. Myndi tryggja áhrifaleysi hans á stjórn borgarinnar í nánustu framtíð. Nóg um það að sinni.
Svipað ástand hér heimafyrir. Við Kimi vökum og njótum samverunnar. Kuldaskítur gærdagsins horfinn og það mun verða hlýtt og vætusamt næstu daga. Fyrsti vetrardagur þann 27. og engin merki um snjó í kortunum á bráðanæstunni. Það er ljúft. Ég verð í hlutverki forstjórans í vinnu fram í miðja næstu viku. Þröstur þarf að yfirgefa skerið í nokkra daga. Ég er nú reyndar ekki kominn með ístru enn. Enda sækist ég nú ekki eftir henni. Vigtin er þó á uppleið aftur. Fer í eftirlit á Lsp. þann 31. Allt á réttri leið og mér finnst byrinn í seglin aukast dag frá degi. Hlakka til dagsins og við Kimi rauðskott sendum bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments:
Þrettándaflokkurinn skal verða næsta stórafl í íslenskum stjórnmálum. Slíkur flokkur hafnar meðalmennsku annarra flokka og skýtur upp flugeldum með fallmið á höfuðstöðvar Framsóknarflokksins. Björn Ingi fær brauðtertu í kveðjusamning, Alfreð Þorsteins kassa af Magic, orkudrykknum, og Finnur Ingólfsson ársáskrift af Andrésblöðum. Síðan verður rosa partí á þrettándanum!

Allt gott frá Berlín. Sól, hiti og svifnökkvar í hópþerapíu á flugi yfir borginni. Tuktirnar lenda annað kvöld! Bestu kveðjur, Sössi
 
Frábær hugmynd. Nú sé ég fram á að geta kosið rétt í næstu kosningum.Sjáumst hress um helgina, Hösi.
 
Já, sama segi ég: best hefði verið að kjósa aftur. En ég veit ekki hvort það má á sveitarstjórnarstiginu. Sjálfsagt þó. Enn verð ég mér til skammar sem útlærður stjórnmálafræðingur að vita þetta ekki.
Kveðjur úr vorblíðunni.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online