Saturday, October 13, 2007

 

Bruðl.

Fólk talar oft um að þetta eða hitt sé ógurlegt bruðl. Einkanúmerakerfið er þar oft tekið sem dæmi um hroðalegt bruðl. Mér fannst afskaplega skemmtilegt að heyra um nýlegt einkanúmer. Það er einfaldlega BRUÐL. Sýnir að sá sem fékk sér það er ekki gjörsneyddur húmor. Undirritaður er líklega hroðalegur bruðlari. Eða bruðla ef ég væri af hinu kyninu. Ákaflega stoltur af einkanúmeri grænu þrumunnar, X-1313. Ég held að ég hafi fæðst með dálæti á tölunni 13. Og hef alla tíð haft gaman af tölum. Tel nánast allt. Hross í haga, ljósastaura, gæsir í oddaflugi, laxa og nefndu það bara. Ég þekki mann sem kaupir bjór fyrir 40.000 á mánuði. Telur það vera hluta af lífsgæðum sínum. Það mætti svosem kalla bruðl. Mér kemur það nákvæmlega ekkert við. Ég eyði talverðum peningum í veiðileyfi og hverskonar græjur tengdum veiðidellunni. Fyrir mér er það ekki bruðl. Það er hluti af mínum lífsgæðum eins og græna þruman með 330 hestöflunum. Alveg eins og nýja einkanúmerið á gamla Lancernum mínum. X-13. Auðvitað finnst mér þessi einkanúmer vera þau flottustu á landinu. Og hvert er svo bruðlið við þetta ógurlega bruðl. Ef við segjum að ég noti númerin bara í 10 ár er kostnaðurinn við þau bæði 517 kr. á mánuði. Það nær ekki verði eins pakka af sígarettum. Ef þú færir þessi númer milli bíla kostar það 500 kr. Tæplega bjór á kránni. Við skulum hætta að hneykslast á því hvað náungar okkar þau Bruðla og Bruðli gera. Ég gæti haldið áfram. Golfið, skíðin, fjallaklifrið og svo framvegins. Þetta er hluti af lífsgæðum fólksins sem stundar þetta sport. Við skulum heldur fordæma bruðl á borð við að kaupa gamlan ryðkláf fyrir Grímseyjarferju. Kostnaður allur farinn úr böndum og hinir vitru ráðherrar reyna svo að hengja bakara fyrir smið. Dæmin úr opinbera geiranum eru mýmörg. Og mér finnst það t.d. hroðalegt bruðl að eyða milljarði til svo fáfengilegs hlutar að komast í öryggisráð SÞ á meðan þarf að grípa til fjársöfnunar til þess að kaupa klippibúnað fyrir slökkvilið norður í landi. Búnað, sem skipt getur sköpum um líf eða dauða.

Þetta var nú laugardagshugleiðing Hösmaga, sem vaknaði hressari í morgun en að undanförnu. Enda fór hann í sauðaeftirlit um sjöleytið. Veður ágætt þó ein og ein skúr láti á sér kræla. Tvö rauðgul eyru sjást héðan upp úr baðvaskinum. Ég og eyrun sendum ykkur kveðjur í allar áttir, Amsterdam, Berlín, Chile, Breiðholt, Garðabær og út í hið óendanlega. Ykkar Hösmagi.

Eftirskrift. Skemmtileg tilviljun að uppgötva það að þetta var 400. pistill Hösmaga frá því í Edinborg forðum. Og dagurinn. Að sjálfsögðu sá 13 þessa mánaðar. Sami.

Comments:
Best væri nú ef þrettán bílar væru í heimreiðinni að Ásttjörn, allir skrýddir mismunandi tilbrigðum við töluna þrettán, til dæmis x-131 (fram og til baka) x-313 (dulkóðun þrettánsins til hægri og vinstri) og ekki síst x-1,3, sem gæfi möguleika á margfeldistilbrigðum á öðrum plötum, og svo x-3,607 (eða hérumbil, skortir reiknivél) sem er veldistala og felur þar með í sér ákveðna dýpt sem ekki er auðrötuð til hins almenna borgara.

Það er sól í Berlín, það var sól allan tímann í Edinborg og Amsterdam líka. Við skötuhjúin ætlum út í hin frægu morgunverðarhlaðborð Berlínarborgar, þar sem fólk er tragterað á hinu ýmsasta góðgæti, svosem eggjum, rúnstykkjum, fersku áleggi og pylsum. Kveðjur að sinni og gott að vita að Hösmagi er að hressast, SBSHS
 
Hér í Ástjörn var heldur ekkert slormeti á borðum. Egg,spæjari, þýskt fjallabrauð og hafragrautur með rjóma.Gott að heyra frá ykkur og það verður líka gott að sjá ykkur aftur. Kærar keðjur frá okkur fósturfeðgum.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online