Wednesday, February 21, 2007

 

Mengunarskattur.

Fyrir nokkrum árum var skipaður starfshópur sem kanna skyldi nýjar leiðir til að draga úr mengun vegna útblásturs bíla. Skynsamlegt og ágætt. Ég heyrði ávæning af að til stæði að skattlegga stóra bensínfreka bíla sérstaklega. Þeir menguðu meira en litlir bílar. Það er að sjálfsögðu rétt séu báðir keyrðir jafnmarga kílómetra. En það eru fleiri hliðar á málinu. Ég legg til að mengunarskattur verði settur inní eldsneytisverðið. Ef ég ek jeppanum mínum 10.000 km og hann eyðir 16 lítrum menga ég jafnmikið og maðurinn sem ekur 20.000 km á sínum smávagni sem eyðir 8 lítrum. Við höfum brennt jafnmiklu eldsneyti og mengað jafnmikið. Greiðum því sama gjald í mengunarsjóðinn. Þróunin er í þá átt að minnka mengunina frá bílvélunum. Jafnvel umhverfissóðarinir í bandaríkjunum eru löngu byrjaðir á þessu. Vetnis- og rafmagnsbílum fjölgar. Bílar sem nota hvorttveggja, bensín og rafmagn eru nú þegar í umferð. Hemi bensínmótorinn í jeppanum mínum er angi af þróuninni. Hann er með 8 strokka en notar ekki nema 4 þegar ekki er þörf á hinum. Það minnkar bensíneyðsluna verulega. Dieselvélin sendir frá sér minna koldíoxíð en bensínvélin. En það kemur meira sót frá henni og svifmengun verður meiri. Þá mættu margir eigendur dieselbíla láta af þeim landlæga ósið að drepa varla á þeim frá morgni til kvölds. Nagladekkin eru líka mikill mengunarvaldur. Svifmengun minnkar verulega ef þau yrðu bönnuð. Við höfum líka nokkrar góðar lausnir í staðinn. Harðkorna- og loftbóludekkin hafa reynst mjög vel. Við skulum hafa mengunarskattinn í eldsneytinu. Það er sanngjarnasta leiðin. Eigandi smábílsins sem ekur lítið borgar lítinn skatt. Sá sem ekur stóra jeppanum mikið borgar mikinn skatt. Og svo skulum við ekki gleyma öðrum mengurum. Hvað með álfurstana? Væri ekki sanngjart að leggja mengunarskatt á þá? Við fengjum þá smávegis uppí niðurgreiðslurnar á rafmagninu. Þetta er að vísu borin von meðan núverandi stjórnendur landsins sitja. En við erum í þann mund að leysa þá frá störfum. Þá skulum við athuga málið. Það má ekki einblína á bílana í þessum efnum. Bara fyrirhuguð stækkun álversins í straumsvík mun valda jafnmikilli mengun og allur núverandi bílafloti íslendinga. Svo er alls ekki útilokað að við gætum sumsstaðar notað rafmagnslestir. En við verðum þá líka að hætta að selja erlendum auðhringjum rafmagnið fyrir nánast ekki neitt. Stundum getur reynst erfitt að breyta hugarfarinu. En neyðin kennir naktri konu að spinna. Við skulum ekki heldur gleyma reiðhjólunum okkar. Né vespunum. Skipuleggjum okkur betur. Og við skulum forðast hugsanagang Loðvíks 14. Það lafir meðan ég lifi.

Í dag ætla ég á aðalfund í félagi fasteignasala. Með Árna Vald með mér. Hann verður með hatt en ég hattlaus. Við munum örugglega báðir taka til máls á fundinum. Og það verður klappað fyrir þessum frábæru ræðumönnum. Kannski komumst við svo á þorparfund í Hótel Selfoss í kvöld. Miðbæjardellan til umræðu. Allt er það mál með ólíkindum. Þar er helst við fyrrverandi bæjarstjórn að sakast. Þá hina sömu og Jón Hjartarson, vinstri grænn, endurreisti í desember s.l.
eftir að hún missti 3 skipverja fyrir borð í bæjarstjórnarkosninunm í vor. Ekki vildi ég þurfa að axla þá ábyrgð.

Sama veður og í gær. Kimi mættur inn aftur. Malar hátt og sleikir skegg fóstra síns. Heilmikið líf í báðum. Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments:
Er þetta ekki allt eitt stórt samsæri olíufurstanna, að halda aftur af samkeppnishæfri tækni? Allt gott annars héðan frá París. Kær kveðja, meðstjórnandinn
 
Punktur: Stórir og bensínfrekir bílar eru skattlagðir með 50% hærri vörugjöldum. Köllum það mengunarskatt.
Punktur: Stórir og bensínfrekir bílar eyða meira eldsneyti. Af eldsneytiverði fer a.m.k. 60-70% beint í ríkiskassann (líklega heimsmet). Köllum það mengunarskatt.
Á erfitt með að trúa að Fiskihrellir vilji bæta aukaskatti við þetta. Jafnvel þótt hann sé vinstri-grænn.
N.B: Ekki misskilja mig, mér finnst margt verra en að vera vinstri-grænn, er það að vísu ekki sjálfur.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online