Tuesday, February 20, 2007

 

Jafnrétti.

Eitt af eilífðarumræðuefnum dægurmálanna er jafnrétti kynjanna. Það er augljóst að mikið vantar enn uppá að það sé fyrir hendi. Mest sláandi er launamunurinn. Þar þarf að taka til hendinni strax. Hinsvegar hef ég aldrei skilið umræðuna um stjórnendur í fyrirtækjum og stjórnmálamennina. Þar hlýtur atgervi einstaklingsins að skipta mestu máli en ekki kynferðið. Þetta er svona álíka gáfulegt og að sjávarútvegsráðherra verði að vera rauðhærður. Dómsmálaráðherrann með hökuskarð og félagsmálaráðherra sköllóttur. Það er fáránlegt að halda því fram að við fáum bestu einstaklingana með því einu að skipta jafnt eftir kynferði. Ég er alveg viss um að við gætum fengið mjög góða ríkisstjórn sem eingöngu væri skipuð konum. Eða bara körlum. Það hefur sannast áþreifanlega að margir aular hafa komist í ríkisstjórn hér á landi.Sumir eins og álfar út úr hól og segja bara að hringt hafi verið í vitlaust númer. Hver hringdi eða í hvern hafa þeir ekki hugmynd um. Kötturinn minn yrði miklu betri ráðherra. Það er líka landlægur siður hér að ráðherrar sitja sem fastast þó þeir verði uppvísir að ýmsu sem sjálfkrafa myndi leiða til afsagnar í löndunum í kringum okkur. Við þurfum að vanda val okkar betur. Við skulum ekki setja fyrir okkur hvort næsti forsætisráðherra verður karl eða kona. Við þurfum bara að koma öllum þessum ráðherrum frá. Fá nýja og öfluga ríkisstjórn sem breytir um stefnu. Í umhverfismálum, efnahagsmálum og ekki síst í utanríkismálum. Og það er mikilvægt að valdasjúkum einstaklingum verið haldið í skefjum. Hvar í flokki sem þeir eru. Það þarf að láta verkin tala. Kveða í kútinn áráttuna í að sitja við katlana og veiða bestu bitana upp úr til að hygla sjálfum sér og vildarvinum sínum. Kannski er þetta draumsýn ein. En verk núverandi ríkisstjórnar er skólabókardæmi um hvernig ekki á að stjórna þessu landi. Ef ekki verða straumhvörf í kosningunum í vor er það ávísun á sömu stefnu. Einkavinavæðinguna og sérhagsmunina. Misrétti þegnanna, ótrúlega skammsýni í umhverfismálum og margt fleira. Þá væri kannski von til þess að Guðni bakari myndi kynda ofnana sína á ný með rafmagni. Hann kyndir nú með dieselolíu í sparnaðarskyni. Íslendingar verða að greiða mjög hátt verð fyrir rafmagnið af því meirihlutann er búið að láta Alcan og Alcoa hafa á spottprís. Af hverju haldið þið að hér séu senditíkur auðhringanna sífellt á ferðinni? Svarið er einfaldlega það að hér sitja stjórnvöld sem þær geta vafið um fingur sér. Nú er tækifæri til breytinga. Við skulum standa upp og hætta að skríða. Kjósum ekki þetta handónýta og örþreytta lið. Það hefur nú þegar setið allt of lengi. Við skulum bera gæfu til að losa okkur við það þann 12. maí. Þá yrðu sannarlega tímamót til hins betra fyrir landið og þjóðina. Við höfum fullt af fólki til að taka við. Rauðhært, sköllótt, með hökuskarð og spékoppa. Konur og karla.

Gjóla og hitinn við núllið. Hér eru íbúar hressir að morgni dags. Hæfilega vindbarðir af útiveru og vináttan söm. Vinstri grænir rauðgranar senda ykkur bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments:
Það er heldur betur gangur í hösmagabloggi þessa dagana! Heyrheyr!
 
Það er nú bara samt þannig að það þarf sértækar aðgerðir til þess að konur fái völd til jafns við karla á hinum ýmsu sviðum samfélagsins. Það vita jafnréttissinnar í Samfylkingunni og VG.
Trúin á það að jafnrétti komi bara af sjálfu sér er helst að finna hjá ungum sjöllum í Heimdalli sem ekki hafa kynnst því á eigin skinni hvernig hlutirnir ganga raunverulega fyrir sig úti í samfélaginu. Það hefur nú líka sýnt sig að jafnrétti kemur svo sannarlega ekki af sjálfu sér. Það þarf meðvitaðar aðgerðir til þess að koma því á.
Svo er ég líka mjög ósammála því að það skipti ekki máli hvort að konur eða karlar séu við völd. Valgerður Sverrisdóttir, hvað sem annars má um hana segja, er að færa hluti mjög til jafnréttisáttar innan utanríkisráðuneytisins þessa dagana og svo má benda á Ingibjörgu Sólrúnu sem fór langt með það að eyða launamun kynjanna hjá starfsmönnum borgarinnar með miklu átaki í sinni borgarstjóratíð og Steinunni Valdísi sem snarhækkaði kjör leikskólakennara.
Muninn mun Ingibjörg Sólrún síðan endanlega sýna í verki þegar að hún verður forsætisráðherra frá og með maí næstkomandi;) (smá draumsýn þarna í lokin).
Bestu kveðjur annars frá Köben.
 
Solla og Steinunn gerðu margt ágætt. En það er einkennileg árátta að þakka þeim einum það skásta sem R listinn kom í verk. Ég veit svo sem að Ingibjörgu veitir ekki af stuðningi í baráttunni fyrir pólitísku lífi sínu. En það var auðvitað kosningabandalag þriggja flokka sem kom umbótunum á í höfuðborginni á valdatíma bandalagsins.Er ekki rétt að láta alla njóta sannmælis?
 
Jú, alveg rétt. En mundu að þarna þurfti svo sannarlega sértækar aðgerðir til.
Hins vegar má benda á það að VG voru mjög fljótir að hlaupa undan sínum axarsköftum innan R-listans í kosningabaráttunni síðasta vor, vildu t.d. allt í einu ekkert kannast við Hringbrautarskrímslið nýja. Töluðu eins og þeir hefðu ekkert haft með neitt að gera. Það sama gerðu framsóknarmenn reyndar líka. Þetta fór alveg gríðarlega í taugarnar á mér. Þannig að það er nú kannski engin sérstök sanngirni í því að hlaupa undan öllu slæma sem maður bar ábyrgð á en vilja svo fá allt hrósið fyrir það góða sem gerðist.
Annars munu Sf og VG kippa jafnréttinu rækilega í liðinn í vinstri stjórninni næsta vor! Ekki svo?
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online