Thursday, February 22, 2007

 

Fundahöld.

Dóttir Þórðar rakara var í gær kjörin formaður félags fasteignasala. Hún heitir Ingibjörg. Mikill meirihluti félagsmanna eru karlar. Segiði svo að okkur sé allsvarnað. Ég óska henni til hamingju með kjörið og óska henni verlfarnaðar í starfi. Það þarf t.d. að bæta ímynd stéttarinnar. Við erum upp til hópa heiðursmenn. En því miður eru gikkir í flestum veiðistöðvum og við þurfum að taka ærlega í lurginn á þeim. Og allt gekk eftir með okkur Árna Vald. Hann með þennan fína hatt en ég státaði hári mínu og skeggi. Að venju tókum við báðir til máls. Árna mæltist vel að venju og undirritaður var meira en sáttur með sjálfan sig. Síðan héldum við heimleiðis án viðkomu á barnum. Vorum fljótir austur á þorparafundinn í Hótel Selfossi. Þar var nýja verðlaunatillagan um miðbæinn kynnt. Og nú gaf á að líta. Þarna voru 4 skipverjar af skútu gömlu bæjarstjórnarinnar. Fastir í gapastokknum sem þeir smíðuðu sjálfir á síðasta kjörtímabili. En þeir höfðu fengið félagsskap. Fulltrúi vinstri grænna hafði líka fengið gapastokk. Og það sem meira er að hann hafði komið sér fyrir í honum sjálfviljugur. Það er bókstaflega með ólíkindum. Hvernig má það vera að menn leiki svona hroðalega af sér. Ekki kaus ég þennan mann til þessara verka. Ég sagði það hér í aðdraganda kosninganna í fyrra að við sætum uppi með mjög slæma bæjarstjórn. Vonaði að hún yrði felld í kosningunum og mér varð að ósk minni. Nokkrum mánuðum síðar stendur bæjarfulltrúi flokksins sem ég kaus fyrir því að endurreisa þetta fólk til valda á ný. Það urðu mér mikil vonbrigði og sérstaklega vegna þess að hann gerði það með ólýðræðislegum hætti. Mér er fullkunugt um að hann tók þessa ákvörðun án samráðs við félag Vinstri grænna hér á staðnum. Ég ætla að vona að honum líði vel í gapastokknum með félögum sínum í Samfylkingu og Framsóknarflokki. En ég hef sagt það hér áður að oft gilda önnur lögmál í kosningum til bæjarstjórnar en í þingkosningum. Ég ætla ekki að láta flokk Steingríms Sigfússonar gjalda aulaháttar eins manns hér á Selfossi. Flokkurinn er eini kostur róttækra vinstrimanna í komandi kosningum. Hann hefur einn flokka barist gegn stóriðjustefnunni sem hefur tröllriðið núverandi stjórnarflokkum um langt skeið. Ef þeir fá umboð til að stjórna landinu áfram munu þeir verða langt komnir með að ráðstafa öllu virkjanlegu vatnsafli á Íslandi til erlendra auðhringa þegar næsta kjörtímabili lýkur. Og fyrir smáaura.Sem betur fer eiga Vinstri grænir þó nokkra góða bandamenn í öðrum flokkum. Þetta fólk á vonandi eftir að berjast með okkur þó það kjósi sína flokka áfram. Óvirkjaða aflið sem við eigum enn hleypur ekki frá okkur. Við skulum staldra við. Æ fleiri eru að átta sig. Nema náttúrlega Véfréttin og og verulegur hluti sjálfstæðismanna. Flokkur Vinstri grænna er eini flokkurinn sem barðist hatrammlega gegn Kárahnjúkavirkjun. Heill og óskiptur. Virkjuninni, sem mun reynast íslendingum erfiður biti í hálsi. Meirihluti Samfylkingarinnar studdi þessa framkvæmd. Núverandi formaður þess flokks vildi ekki " setja fótinn fyrir þetta mál." Nú veifar hann nýjum fána. Fagra Ísland heitir hann. Það er góðra gjalda vert, en sporin hræða. Ef við viljum sporna við frekari umhverfisafglöpum eigum við bara einn ótvíræðan og góðan kost. Hann blasir við mér og mörgum öðrum. Stöðvum æði afglapanna strax í næstu þingkosningum. Drekkjum ekki fögrum byggðum svo Alcan fái meira af gjafarafmagni. Berjumst með kjafti og klóm gegn þessari hryðjuverkastarfsemi. Með kveðjum úr gjólunni, ykkar Hösmagi.

Comments:
Já, maður hugsar svosem alveg sinn gang.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online