Sunday, August 28, 2005
Smámunasemi.
Einhver aumasta síða hér á vefnum er ruv.is. Mér er að verða sönn raun að því að kíkja á hana. Þar morar allt af villum. Ótrúlegum málblómum og stundum er ekki heil brú í setningunum. Og þetta er maður neyddur til að borga fyrir. Greinilegt að þeir sem skrifa á vefinn eru ekki starfi sínu vaxnir. Þarna var t.d. þjófur í hljólastól í heila viku. Reyndar með vægari villum. Það er mjög svo athugavert að ekki skuli vera hægt að skrifa síðuna rétt einn einasta dag allan ársins hring. Ég hef sent tölvupóst en ekkert svar fengið. Lengi þótt vænt um ríkisútvarpið og sárnar þessi sóðaskapur með ástkæra ylhýra. Ég hef stundum þótt smámunasamur í vinnunni. Verið að nöldra yfir því að menn vandi sig ekki nóg þegar verið er að skrifa texta. En ég held áfram nöldrinu og miðar bara nokkuð vel. Eignirnar á hinum fasteignasölunum eru alltaf að telja. Sumar telja 3 herbergi og eldhús og aðrar telja 5 herbergi og bílskúr. Eignirnar hjá Bakka telja ekki neitt. Þær eru ýmist 3ja eða 5 herbergja, minni og stærri, gamlar og nýjar en telja ekki neitt.Ég á veiðileyfi á Snæfoksstöðum í dag. Á mörkunum að ég nenni uppeftir. Áin foráttudrullug þar efra. Líklega verð ég samt að friða samviskuna og skreppa í svona einn til tvo tíma. Þeir fiska ekki sem ekki róa. Sit nú bara yfir morgunkaffinu og Raikonen leikur á alls oddi. Merkilegt hvað ein snifsislufsa getur verið óhemjuskemmtileg fyrir ungan kött. Ég held að þessi köttur hafi a.m.k. meðalkattagáfur. Í gær sagði ég við hann: Langar þig út. Mjá, mjá sagði dýrið og þaut að dyrunum.. Jafnast kannski ekki á við Hösmaga, enda þarf nú mikið til. Ég pantaði nýtt spegilgler á Grána minn um daginn. Það kom frá USA og kostaði bara 9.900 kr. Gráni er 1955 kg. og glerið 100 gr. Mér reiknast til að ef ég þyrfti að kaupa allt annað í Grána þá kostaði það 193.545.000 Eins gott að fara varlega með þennan einstaka eðalvagn. Búinn að aka honum 10.000 km á þessu hálfa ári síðan ég keypti hann. M.a. 5 ferðir í Veiðivötn. Svona dýr vagn verðfellur nokkuð við hvern ekinn km. En það er bara hluti af tilverunni nú um stundir að vera vel akandi.Það hefur nokkuð dregið úr norðanáttinni en greinilegt að haustið er á næsta leyti. Þessi endalausa hringrás heldur áfram. Áður en við er litið koma jólin og aftur fer að birta. Og svo kemur hin nóttlausa voraldar veröld með nýjum æfintýrum. Ykkar Hösmagi hæfilega bjartsýnn á veiði í dag.
Comments:
<< Home
Var að fara inn á bloggið eftir nokkra hríð. Sá hina mjög svo stórkostlegu Veiðivatnafrétt. Voru það ekki fjórir 6,5-7,5 p. og slatti af einhverju minna? Ha?
Jú Sölvi minn. 2 voru 3.8 kg. 2 3,6 og sá 4ði 3.2 Auk þess 4urra pundari 4 2ja pundarar. Enn í sæluvímu. Hefurðu orðið síma? Kv. P
Post a Comment
<< Home